Fara í efni
Pílagrímsganga Róm
Ferðalýsing Pílagrímaganga síðustu 125km. til Rómar

10-20.október 2025


Fararstjóri er Steinunn Harðardóttir

Fyrir all nokkrum árum hélt Magnús Jónsson sagnfræðingur vinsæl námskeið um suðurgöngur Íslendinga á miðöldum. Í framhaldi af þeim fór hann með all marga gönguhópa um nokkra hluta pílagrímaleiðarinnar til Rómar. Frá Lucca til Siena, niður Santi Bernharðsskarðið, yfir Appeninafjöllin niður í Genúaflóann, Frá Avenzis til Lucca og að lokum síðustu 125 kílómetrana til Rómar.
Haustið 2025 gefst enn kostur á að ganga síðasta áfangann frá Montefiascone til Rómar. Þeir sem fara að lámarki þessa leið geta fengið viðurkenningu páfa í lokin. Að þessu sinni verður Steinunn Harðardóttir leiðsögumaður og sagnaþulur í stað Magnúsar. Það er til íslensk leiðarlýsing fyrir pílagríma frá 1153 eftir Nikulás Bergsson ábóta á Munkaþverá og liggur leið göngumanna í fótspor hans eins og unnt er. Margir þekktir Íslendingar gengu suður, m.a. Guðríður Þorbjarnardóttir, Hrafn Sveinbjarnarson og Sturla Sighvatsson sem var leiddur berfættur milli allra kirkna í Rómaborg og hýddur frammi fyrir flestum höfuðkirkjum.

FERÐATILHÖGUN:

Flogið er til Rómar og ekið til Montefiascone sem er nokkuð sunnan við Siena. Gengið er í fótspor pílagríma en einnig Rómverja þegar farin er hin forna via Appia leið eftir hellulögðum stígum. Leiðin liggur um einstaklega fallegt landslag og gamla sögufræga bæi eins og Viterbo og Sutri. Að mestu er gist í tveggja manna herbergjum bæði á hótelum og í einfaldari gistiaðstöðu þó gætu þrír þurft að deila herbergi á einum gististað. Kvöldverður innifalinn alla göngudagana en hádegisverður á eigin vegum. Farangur er alltaf fluttur milli staða og bíll fylgir hópnum svo þeir sem þess óska þurfa aðeins að ganga hluta dagleiðanna en geta fengið far seinni hluta dagsins.

1. Dagur Reykjavík Róm-Montefiascone
Flogið til Rómar, þaðan er um tvegga tíma akstur til Montefiascone þar sem gist er fystu nóttina. Montefiascone sem stendur á hæð sunnan við Bolsenavatnið er um 100 kílómetrum norðan við Róm og innan vébanda Laziohéraðsins í mið Ítalíu. Borgin sem stendur uppi á hæð var ein af 12 höfuðborgum Etruska og kastalinn þar var einn af dvalarstöðum Albornos Kardinála þegar páfastóllinn var í Avignon. Kastalinn fór síðar í niðurníðslu vegna sjúkdómsfaraldurs 1657 og mikilla jarðskjálfta 1697 en hefur að einhverju leyti verið endurbyggður. Gisting og kvöldmatur á hóteli Alta Villa http://www.altavillahotel.com/altavilla/ eða sambærilegum stað.

2. Dagur Montefiascone- Viterbo (16-20 km)

Um morguninn gefst tími til að skoða sig um í Montefiascone og jafnvel fara upp í „pílagrímaturninn“. Þaðan er gott útsýni yfir gönguleiðna til Viterbo og síðan Rómar og yfir hið undurfallega Bolsenavatn. Við fáum tilfinningu fyrir svæðinu og sögu þess allt frá tímum Etruska, Rómverja og fram á miðaldir. Leiðin liggur að hluta eftir hellulögðum vegi, Via Cassia sem var mikilvæg rómversk leið, líklega frá 2.öld fyrir Krist. Á göngunni er víða heillandi útsýni yfir Montefiascone og Viterbo. Þegar um fimm kílómetrar eru til Viterbo er farið fram hjá aflögðum heitum böðum „Terme del Bagnaccio“. Þeirra er getið þegar á miðöldum. Viterbo var páfasetur um skeið og þar er mikið af glæsilegum kirkjum og klaustrum frá þeim tíma. Gaman er að skoða fyrrum dvalarstað páfa „Palazzo dei Papi“ og rölta um gamla bæjarhlutann “del Pellegrino” Kvöldverður á hótelinu eða „tavernu“ í gamla borgarhlutanum. Gisting og morgunverður www.tusciahotel.com eða sambærilegt hótel Gengið 18-20km 5-6 tíma, hækkun+150m lækkun 450m 3.

3. Dagur Viterbo-Vetralla 18 km
Enn er gengið í Tuscia héraðinu um ólívulundi, akra og engi, framhjá litlum sveitabæjum og fé á beit. Þennan dag er farið yfir mörkin þar sem nákvæmlega 100 kílómetrar eru til Rómar, en það er lágmarksvegalengd til að fá TESTIMONIUM eða viðurkenningu páfa. Gisting og kvöldverður (Antica Locanda Francigena- Vetralla (locandafrancigena.it.)eða á sambærilegum stað. Gengið 18 km 6 tíma hækkum +260m; lækkun -280m

4. Dagur Vetralla- Capranica (18 km)
Þennan dag er gengið um einstaklega falleg sveitahéröð milli tveggja borga. Þegar komið er til Capranica er gaman að skoða sig um í bænum sem er við rætur fornra eldfjalla Cimini og Sabatini og allt landslagið ber eldvirkninni merki. Um 6 kílómetrum norðan við bæinn er gígvatnið Vico og fyrir sunnan hann er Braccianovatnið sem einnig er í gömlum gíg. Bærinn stendur á hæð með útsýni yfir Sutridalinn. Fegurð staðarinns heillar marga Rómverja sem ýmsir eiga þarna sumarhús. Bærinn skiptist í 3 hluta og tveir þeirra elstu eru á móbergsklettum milli djúpra dala. Federico Fellini tók lítinn hluta myndarinnar La dolce vita fyrir neðan annað þeirra, „Castrovecchio við Porta del Ponte“. Gisting og kvöldverður ( Hotel Capranica ( http://www.hotelcapranica.it/) eða ( https://www.monastica.info/ ) Gengið 18 km 5-6 tíma hækkun +400m lækkun -400m.

5. Dagur. Capranica-Sutri (7-10 km)
Þennan dag fer drjúgur tími í að skoða sig um í hinum sögulega bæ Sutri og virða fyrir sér freskurnar í Santa Maria del Parto kirkjunni. Sérlega athyglisverðar eru fornar myndir af pílagrímum. Þá er einnig farið í skoðunarferð með leiðsögn um einstakan rómverskan leikvang sem er listilega grafinn inn í hæð. Að því loknu er genginn síðasti spölurinn til Monterosi þar er mjög skemmtileg bændagisting þar sem gott er að slaka á. Gisting og kvöldverður Antico Borgo di Sutri https://www.anticoborgodisutri.it/ eða Agriturismo Montefosco (https://www.agriturismomontefosco.it/ ) gengið 10-12 km, um 6 tímar upp 250m, niður -250m

6. Dagur. Sutri-Campagna. (24 km)
Ganga dagsins liggur um Trejadalinn sem er við rætur Montegelatofjallsins. Þarna eru tærar lindár sem hægt er að baða sig í og fallegir fossar. Enn er gengið eftir hinni fornu Rómversku leið Via Cassia en hún liggur um bæinn Campanagnano De Roma sem er fyrst getið 1076. Þegar nær dregur má sjá húsin rísa upp í landslaginu. Fyrir kvöldmatinn er gaman að skoða sig um í Campagnano. Gisting og kvöldverður Hotel Benigni – Campagnano (RM) http://www.hotelbenigni.it eða á sambærilegum stað. Gengið 6 -7 tíma 24 km ; hækkun +150m lækkun -150m

7. Dagur. Campagnano-Isola Farnese (19 km)
Frá Campagnano er haldið um skógivaxnar hæðir þjóðgarðsins Vejo, niður í Sorbodalinn og gegnum Formello sem er sérlega skemmtilegur miðaldabær. Að lokum er komið til Isola Farnese sem stendur í skógivaxinni hæð, efst á henni trónir Farnesekastalinn. Gisting og kvöldverður: Hotel Tempio di Apollo ( http://www.hotelromacassia.it/ ) Gengið 19 km 6 tíma hækkun 550m lækkun 650m

8. Dagur. Isola Farnese-Rome ( ca 15.km
)
Eftir morgunverð erum við tilbúin fyrir síðustu og dagleiðina og enn er haldið eftir hinni hefðbundnu pílagrímaleið. Að nokkru er gengið í borgarlandslagi en leiðin liggur um úthverfi borgarinnar. Við munum þó væntanlega taka lest hluta leiðarinnar að Monte Mario friðlandinu til að hafa meir tima á Péturstorginu i lokin. Þegar komið er á Monte Mario blasa Péturskirkjan og Péturstorgið við í fjarska og fyrr en varir verðum við komin þangað og markinu náð. Gengið ca 4 tíma. Gist á Hotel Medici http://www.hotelmedici.com eða öðru sambærilegu hóteli

9. Dagur. Pílagrímakirkjurnar í Róm
Við notum fyrri hluta dagsins til að ganga á milli kirkna í borginni að pílagríma sið og förum í fótspor Sturlu Sighvatssonar í kirkjurnar Santa Maria Maggiore, San Pietro in Vincoli, St Giovanni í Laterano, og fleiri kirkjur.

10. Frjáls dagur í Róm

11. Dagur. Ekið á flugvöllinn kl 13.00 og flogið heim frá Róm

Ath hótelgistingarnar sem gefnar eru upp geta breyst.


Erfiðleikastig. 2 fjöll en alla dagana er hægt að fá akstur hluta dagleiðarinnar. Að mestu er gengið á stígum um mishæðótt landslag en þó þarf stundum að ganga spöl á malbiki inn og út úr bæjunum. Hækkun frá 150-550 m.

Umsagnir:
„Frábær ferð og þvílíkur hápunktur þegar við gengum inn í Róm.“
„Skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í“
„Í fyrra datt okkur nokkrum vinkonum í hug að taka þátt í pílagrímagöngu á Ítalíu. Við vissum ekki alveg hvað væri í vændum en þar sem Steinunn Harðardóttir vinkona okkar var fararstjóri vorum við vissar um að þetta yrði góð ferð. Skemmst er frá því að segja að allt skipulag var til fyrirmyndar og stóð allt eins og stafur á bók. Hópurinn alls 16 manns gekk um ítalskar sveitir eftir pílagrímaleiðum og gisti í litlum þorpum og bæjum, allt í kring voru fornar minjar og söguslóðir. Í lokin var gist í Róm og merkar minjar skoðaðar. Alls staðar var fyrsta flokks matur. Fararstjórarnir Steinunn, Mateo og Gabriele sáu um að allt gengi snurðulaust og fá þau hæstu einkunn hjá mér. Ferðin var frábær í alla staði.“